Norðmenn reiðir vegna útreikninga kortafyrirtækja

Reuters

Fjöldi Norðmanna er nú ævareiður vegna útreikninga á úttektum þeirra á greiðslukort á Íslandi að undanförnu. „Þetta er argasta svindl,” segir einn þeirra Espen Hasselberg Jacobsen, sem fékk reikning upp á helmingi hærri upphæð í norskum krónum en hann hafði reiknað með. Þetta kemur fram á vef Dagbladet.

Jacobsen segist hafa reiknað með helmingi lægra gengi íslensku krónunnar en því sem Noredea bankinn hafi síðan notað við útreikning á Visa Gold korti hans. Hann hafi því haft samband við Teller, fulltrúa norskra kortafyrirtækja en að þar hafi enginn getað fært rök fyrir útreikningunum.

„Þeir sögðu mér að Visa ákvæði sjálft gengi á grundvelli fjármálakreppunnar og það gat enginn sagt mér hvað lægi að baki slíkum ákvörðunum,” segir hann. Torstein Lind-Isaksen, talsmaður Visa Norges Bankgruppe, segir það hins vegar vera mistök neytenda að reikna gengi út frá skráningu íslensku krónunnar hjá norska seðlabankanum. Þar sé einungis um viðmiðunarverð að ræða en ekki raunverulegt gengi.

Greint hefur verið frá svipuðum tilfellum í Danmörku, þar sem danskir korthafar fengu mun hærri reikninga eftir Íslandsheimsóknir en þeir reiknuðu með.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert