Sjóðir, sem ávaxta séreignarlífeyrissparnað landsmanna, hafa fengið mikinn fjölda fyrirspurna að undanförnu frá sjóðsfélögum.
Fólk vill ekki síst fá að vita, hvort það eigi að halda áfram að greiða inn á reikninga sína. Mánaðamót eru á næsta leiti og því eðlilegt að þessi spurning vakni.
Forsvarsmenn þeirra lífeyrissjóða, sem Morgunblaðið hefur rætt við, hafa hvatt fólk til að halda áfram að spara. Að öðrum kosti missi það 2% greiðsluna, sem atvinnuveitandinn greiðir til viðbótar 4% sparnaði launamanna. Stjórnir sjóðanna hafa tilkynnt, að greiðslur sem borist hafa í þessum mánuði og berist á næstu vikum, verði lagðar inn á innlánsreikninga í bönkunum, sem ríkissjóður hafi tryggt. Lífeyrissjóðirnir vinna að því að meta stöðu séreignarsparnaðarins í kjölfar falls bankanna þriggja. Ljóst er að sjóðirnir hafa orðið fyrir einhverjum skakkaföllum.
sisi@mbl.is