Framsýn- stéttarfélag skorar á stjórnvöld að hækka atvinnuleysisbætur hið fyrsta til þess að koma til móts við þá einstaklinga sem þegar hafa misst vinnuna, og þann mikla fjölda sem býr við ótryggt atvinnuöryggi og gætu því staðið uppi atvinnulausir á næstu vikum og mánuðum.
Þetta kemur fram í álytkun sem var samþykkt fundi stjórnar Framsýnar- stéttarfélags Þingeyinga fyrr í dag.
Þar segir ennfremur:
„Í þeim miklu erfiðleikum sem herja nú á efnahagslíf þjóðarinnar er ljóst að fjölmargir munu til viðbótar missa vinnuna vegna samdráttar og gjaldþrota. Því er mikilvægt að atvinnuleysistryggingasjóði verði tryggðir fjármunir til að hækka grunnatvinnuleysisbætur og að tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði aukið til muna. Með slíkum aðgerðum má draga úr því áfalli sem einstaklingar ganga í gegnum við atvinnumissi.
Jafnframt hvetur félagið til þess að þjónusta við atvinnuleitendur og atvinnurekendur verði efld með auknum vinnumarkaðsaðgerðum.“