Svört mánaðamót

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags þingeyinga
Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags þingeyinga mbl.is

Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík hefur síðustu tvo daga borist tilkynningar um uppsagnir á tæplega 30 starfsmönnum. Um er að ræða félagsmenn sem starfa hjá fyrirtækjum og stofnunum á félagssvæðinu. Í vikunni hafa 50 manns á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness fengið uppsagnarbréf og býst formaður félagsins við frekari uppsögnum.

Daglega berast fréttir af uppsögnum starfsmanna á höfuðborgarsvæðinu sem skipta hundruðum. Uppsagnirnar ná yfir landið allt.

Uppsagnirnar taka gildi á misjöfnum tíma, sumir missa vinnuna á næstu dögum meðan aðrir hafa allt að þriggja mánaða uppsagnarfrest.

Til viðbótar uppsögnum sem tilkynntar hafa verið til skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík, má geta þess að sláturtíðinni á Kópaskeri og Húsavík er lokið og við það misstu þó nokkuð margir atvinnuna.

Um síðustu mánaðamót voru 305 atvinnulausir á Norðurlandi-eystra. Þar af voru tæplega 50 skráðir á félagssvæði Framsýnar, stéttarfélags Þingeyinga. Aðalsteinn Baldursson, formaður félagsins segir ljóst að þessi tala muni hækka umtalsvert á næstu mánuðum.

Það muni þó draga nokkuð úr fjölguninni er að erlenda vinnuaflið sem starfað hefur á svæðinu muni að mestu fara aftur úr landi og því ekki koma inn á skrár um atvinnuleysi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka