Íslensk stjórnvöld hafa fengið eina af kunnustu lögmannsstofum í Lundúnum til að kanna hvort hægt sé að sækja bótarétt á hendur breska fjármálaráðuneytinu vegna þeirra aðgerða, sem beitt var gegn íslensku bönkunum í borginni.
Viðskiptablaðið Financial Times segir, að sú ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar að ráða Lovells, lögfræðistofu sem þekkt sé fyrir að leggja mikið undir í málaferlum, bendi til þess að deilur ríkjanna tveggja vegna þeirrar ákvörðunar Alistairs Darlings, fjármálaráðherra, að knýja Singer & Friedlander, dótturfélag Kaupþings, í greiðslustöðvun og frysta eigur Landsbankans í Bretlandi á grundvelli hryðjuverkalaga, hafi þróast út í annað og meira en pólitískt orðaskak.
„Fólk er reitt," hefur blaðið eftir einum lögmanni, sem vinnur að málinu. „Fólk er afar reitt."
Financial Times segir, að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi falið Lovells að rannsaka hvernig íslenska bankakerfið verði best byggt upp á ný og einnig að kanna hvort grundvöllur sé fyrir hugsanlegu skaðabótamáli gegn Bretlandi.
Talsvert stór hópur lögmanna er sagður vinna að málinu undir stjórn Richard Brown, eins af eigendum stofunnar, og Joe Bannister, sem er sérfræðingur í gjaldþrotarétti og uppbyggingu fyrirtækja. Haft er eftir talsmanni fyrirtækisins, að Lovells hafi veitt íslensku ríkisstjórninni ráðgjöf um enska og alþjóðlega þætti fjármálaumrótsins á Íslandi.
Sérfræðingar sögðu við FT, að meiri líkur væru á því en minni, að þjóðirnar tvær næðu samkomulagi frekar en láta deilur þeirra fara fyrir enska dómstóla. Slíkt gæti leitt til þess að orðstír beggja ríkjanna biði hnekki.
Dæmi um hætturnar er að sögn lögmanna nýleg deila um það hvort íslenska stjórnin hafi sagt breska fjármálaráðuneytinu að Ísland myndi standa við skuldbindingar sínar gagnvart breskum sparifjáreigendum. Þær deilur hafi leitt til þess, að útskrift af samtali fjármálaráðherra ríkjanna var lekið í fjölmiðla.
Lovells hefur tekið þátt í mörgum umdeildum og áberandi lagaþrætum. Þannig hafi fyrirtækið verið fulltrúi þrotabús Bank of Credit and Commerce International sem fór í mál við Englandsbanka. Málaferlin stóðu yfir í 13 ár áður en málið fór út um þúfur og lögfræðikostnaðurinn nam yfir 100 milljónum punda, jafnvirði um 19 milljarða króna.
Kaupþing hefur ráðið aðra lögmannsstofu, Grundberg Mocatta Rakison, til að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að bankinn höfði skaðabótamál gegn breskum stjórnvöldum.