85% af vergri landsframleiðslu

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að kostnaður sem ríkið þarf að taka á sig vegna þrots bankanna, gæti numið allt að 85% af vergri landsframleiðslu. Þá megi gera ráð fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs gæti á næsta ári verið nærri 10% af landsframleiðslu.

Þá muni vergar brúttóskuldir ríkissjóðs, sem námu 29% af landsframleiðslu í árslok 2007, hækka í yfir 100% í lok næsta árs. Geir sagði að bankakreppan muni því setja hinu opinbera verulegar skorður.

Áætlað er að verg landsframleiðsla á síðasta ári hafi verið tæpir 1300 milljarðar króna. Samkvæmt þessu gæti halli á ríkissjóði orðið 130 milljarðar króna á næsta ári og skuldbindingar vegna bankahrunsins 1100 milljarðar króna.

Geir sagði, að ekki væri ætlunin að ríkið ætti bankana til langframa. Verið væri að leggja þeim til hlutafé sem vonandi yrði hægt að selja síðar, jafnvel með ávinningi, þannig. Það væri reynsla úr nálægum löndum, að ríkissjóðir, sem hafi þurft að grípa til samskonar aðgerða, hafi þegar frá leið, komist skaðlaust frá þeim.

Geir sagði að sennilega væri bankakreppan á Íslandi ein sú stærsta, ef ekki sú stærsta, sem orðið hafi í heiminum. Hann sagði að vonir stæðu til, að vextir gætu lækkað fljótlega á ný með lækkandi verðbólgu og því að krónan nær jafnvægi á gjaldeyrismarkaði. Menn yrðu að sætta sig við ákveðinn sársauka nú vegna vaxtahækkunar Seðlabanka í vikunni en hún væri forsenda fyrir því að jafnvægi kæmist á að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka