Aðstoð vegna erfiðleika að skýrast

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra. mbl.is/Golli

Stjórnvöld hafa lýst því yfir að meðal þess mikilvægasta sem gera þurfi um þessar mundir sé að verja heimilin í landinu. Að þessu hefur verið unnið að sögn Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, og snýr það meðal annars að yfirtöku Íbúðalánasjóðs á íbúðalánum bankanna, eflingu Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, skuldbreytingum og frystingu lána og fleiri sviðum.

Segir Jóhanna að reglugerð um yfirtöku Íbúðalánasjóðs á húsnæðislánum fjármálafyrirtækja hafi verið í undirbúningi og verði gefin út á næstu dögum. Þegar hafi verið fundað með fulltrúum Nýja Glitnis um hugsanlega yfirtöku á húsnæðislánum frá bankanum.

„Rétt er líka að minna á að tilmæli hafa verið send til fjármálafyrirtækja um að þau beiti hliðstæðum úrræðum og Íbúðalánasjóður hefur yfir að ráða vegna greiðsluvanda lántakenda sinna óháð yfirtöku Íbúðalánasjóðs á húsnæðislánum þeirra,“ segir Jóhanna.

Ráðgjafarstofan efld

Á grundvelli tilmæla félags- og tryggingamálaráðherra og samkomulags ráðuneytisins, Íbúðalánasjóðs og Reykjavíkurborgar hefur verið ákveðið að efla þjónustu Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna með auknu fjárframlagi. Segir Jóhanna að í samkomulaginu, sem gildir í næstu 6 mánuðu, felist að starfsmönnum er fjölgað um 4, en í dag eru 11 starfsmenn hjá Ráðgjafarstofunni. Í framhaldinu sé verið að kanna frekari leiðir til að efla og styrkja þjónustuna almennt við þá sem eigi í greiðsluerfiðleikum.

„Meginverkefnið í dag er að mæta aukinni eftirspurn eftir aðstoð vegna greiðsluerfiðleika, afgreiðslutími hefur verið lengdur og svörun, símaráðgjöf og netspjall eflt. Samningur er við Akureyrarkaupstað og fer ráðgjafi tvisvar í mánuði þangað og veitir ráðgjöf til íbúa sveitarfélagsins. Einnig er verið að auka samstarf við velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Íbúar á landsbyggðinni geta sent inn umsóknir og eru þær afgreiddar og sendar til baka. Vegna fjölgunar umsókna vegna greiðsluerfiðleikaðstoðar til Íbúðalánasjóðs er verið að vinna að því í samvinnu við Íbúðalánasjóð að einfalda umsóknir um greiðsluerfiðleikaaðstoð vegna lána sjóðsins. Að lokum er einnig er verið að vinna að því að kanna hvernig Ráðgjafarstofa geti styrkt og veitt ráðgjöf t.d. til sveitarfélaga og fleiri aðila í þjóðfélaginu vegna greiðsluerfiðleika. Vinnubrögð eru almennt endurskoðuð í ljósi reynslu til þess að mæta auknu álagi.“

Greiðsluaðlögun forgangsmál

Vinnuhópur fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, félags- og tryggingamálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins vinnur nú að smíði frumvarps um nýjar reglur um greiðsluaðlögun en slík lagaákvæði hafa ekki verið í íslenskri löggjöf til þessa. Samkvæmt upplýsingum frá Jóhönnu liggja drög að tillögum sem hópurinn fer nú yfir og segir hún að vænta megi tillagna til ráðherra innan skamms enda sé hér um forgangsmál að ræða.

Verðtrygging til skoðunar

Síðastliðinn mánudag var greint frá því að félags- og tryggingamálaráðherra hefði skipað sérfræðinganefnd til að skoða hvort og hvaða leiðir væru færar til að bregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar. Nefndina skipa Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur og forseti Alþýðusambands Íslands, sem er formaður starfshópsins. Aðrir fulltrúar eru Þorkell Helgason stærðfræðingur, Vilborg Helga Júlíusdóttir hagfræðingur, Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur og Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, starfar með hópnum.

Að sögn Jóhönnu heldur nefndin nú daglega fundi og fjallar um verkefnið út frá víðu sjónarhorni og mögulegum lausnum með hagsmuni einstaklinga að leiðarljósi til lengri tíma litið. Segir hún að nefndin hafi m.a. fjallað um áhrif frystingar myntkörfulána á einstaklinga. Nefndin sé að kortleggja umfang lána, bæði verðtryggingu og myntkörfulán allra landsmanna þannig að stjórnvöld hafi nákvæmar upplýsingar á að byggja á næstu dögum og vikum en nefndinni sé ætlaður skammur tími til vinnu.

„Afar mikilvægt er að leggja áherslu á það við almenning að enginn lántakandi sem hefur tök á að greiða af láni fresti því, vegna þess að verið sé að vinna að margvíslegum greiðsluerfiðleikaúrræðum. Mismunandi greiðsluerfiðleikaúrræðum er ætlað að mæta vanda þeirra sem eru í vanskilum og ekki geta greitt af lánum sínum nú og á næstu vikum og mánuðum,“ segir Jóhanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert