Áform um ný störf í sprotafyrirtækjum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar

Til álita kemur, að  Atvinnuleysistryggingasjóður taki upp samstarf við Samtök iðnaðarins og Samtök sprotafyrirtækja um að skapa hundrað ný störf í sprotafyrirtækjum fyrir fólk sem misst hefur vinnuna. Þetta kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, á Alþingi í dag.  

Ingibjörg Sólrún sagði, að bjóða þurfi þeim sem missa vinnuna endurmenntun við hæfi sem geri þessa einstaklinga að eftirsóttum starfskröftum í framtíðinni.  Þar gegni háskólarnir lykilhlutverki og sé mikilvægt að boðið verði upp á ný hagnýt námskeið fyrir atvinnulausa á allra næstu mánuðum.

Hún sagði að jafnframt því að grípa til aðgerða sem bæta hag heimilanna þurfi ríkisstjórnin að beina sjónum að umhverfi fyrirtækjanna í landinu og þar sé forgangsmál að tryggja gjaldeyrisviðskipti til og frá landinu.

„En fleira þarf að koma til. Mörg góð en skuldsett fyrirtæki  munu ramba á barmi gjaldþrots ef ekkert verður að gert. Þessi fyrirtæki, sem mörg hver eru með skuldir í erlendri mynt, hafa orðið fyrir þungum búsifjum að undanförnu vegna gengisfalls krónunnar og hruns verðbréfamarkaðar.  Ríkisvaldið þarf að skoða hvort hægt sé að beita niðurfærslu skulda hjá slíkum fyrirtækjum í því skyni að koma í veg fyrir frekari uppsagnir, atvinnuleysi og tekjumissi hjá heimilunum í landinu.  

Í því skyni verður hins vegar að gæta þess að fylgt verði almennum og gegnsæjum reglum sem byggi á jafnræði og sanngirni.  Þar getum við ýmislegt lært af frændum okkar Svíum og Finnum sem fóru í gegnum fjármálakreppur fyrir nokkrum árum," sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagði að Íslendingar verði að læra af reynslunni við uppbyggingu nýs fjármálakerfis á Íslandi.  Nýtt bankakerfi þurfi að byggja á gegnsæi, fagmennsku og gildum eins og góðu viðskiptasiðferði í samskiptum við einstaklinga og fyrirtæki. Óhófleg launakjör æðstu stjórnenda verða að heyra sögunni til, sömuleiðis himinháar starfslokagreiðslur og bónusgreiðslur sem byggðar eru á skammtímagróða.  

„Við verðum að læra af reynslunni og þess vegna verðum við að viðurkenna að peningamálastefnan hefur gengið sér til húðar.  Ný peningamálastefna á að byggja á stöðugum gjaldmiðli og faglegri yfirstjórn Seðlabanka Íslands sem nýtur trausts jafnt hér heima sem erlendis," sagði Ingibjörg Sólrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert