Álíta sig hæfa til að rannsaka syni sína

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari og Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, álíta sig ekki vanhæfa til að sinna frumrannsókn á starfsemi viðskiptabankanna þriggja, í aðdragandanum að falli þeirra.

Valtýr Sigurðsson sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að starf þeirra Boga nú fælist í því að safna gögnum. Hins vegar væri ekki verið að taka neinar skýrslur af fólki, rannsókn beindist ekki að neinum ákveðnum og enginn hefði stöðu sakbornings. Kæmi til þess yrði það í höndum viðkomandi yfirvalds, efnahagsbrotadeildar, skattayfirvalda eða annarra.

Sonur Valtýs, Sigurður, er forstjóri Exista. Sonur Boga, Bernhard, er framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Stoða. Hvort tveggja er útrásarfyrirtæki með tengsl við fallna banka, Kaupþing og Glitni. Í október 2005 lýsti Bogi sig vanhæfan til að stýra athugun á gögnum í Baugsmálinu, þar sem óhlutdrægni hans var dregin í efa. Það var vegna starfstengsla bróður hans og sona við ákærða endurskoðendur hjá KPMG Endurskoðun hf., þar sem þeir störfuðu á þeim tíma.

„Ég held að hvergi sé hægt að finna nokkurn mann [til að rannsaka þetta] sem er ekki í tengslum við einhvern sjóð, banka eða fyrirtæki. Ég held það verði að stíga varlega til jarðar áður en farið er að tala um vanhæfi á þessu stigi,“ sagði Valtýr. Hann minnir á að verið sé að vinna að því að fá óháða erlenda aðila til að aðstoða við rannsóknina. Aðspurður vísaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á þá Valtý og Boga. Engum væru reglur um vanhæfi betur kunnar en þeim. „...þeir eiga sjálfir síðasta orðið um hæfi sitt eða vanhæfi og treysti ég dómgreind þeirra óskorað í því efni,“ sagði Björn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka