Borgin semur við SÁÁ

Jórunn Frímannsdóttir, formaður Velferðaráðs
Jórunn Frímannsdóttir, formaður Velferðaráðs mbl.is/Valdís Thor

Borgarráð samþykkti í morgun tillögu Velferðarráðs um að ganga til samninga við SÁÁ um rekstur búsetuúrræðis með félaglegum stuðningi. Búsetuúræðin eru samvinnuverkefni Velferðarsviðs borgarinnar og félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Samið verður við SÁÁ um 14 rými í leiguíbúðum miðsvæðis í Reykjavík til næstu þriggja ára. Innan sex mánaða verður rýmunum fjölgað um sex eða upp í 20 talsins á einum stað í bænum. Heimilismönnum verður óheimilt að neyta áfengis- eða vímuefna í íbúðunum. Stefnt er að því að fyrstu einstaklingarnir geti flutt inn í íbúðirnar í nóvember. Þar verður vakt allan sólarhringinn.

„Ég er sérstaklega ánægð með að málið skuli loks vera í höfn þannig að hægt verði að koma til móts við þarfir þeirra einstaklinga sem þurfa á heimili að halda á þeirra forsendum, “ segir Jórunn Frímannsdóttir, formaður Velferðarráðs.

Búsetuúrræðin eru ætluð einstaklingum á batavegi eftir að hafa hætt neyslu áfengis- og/eða annarra vímuefna. Markmiðið er að veita einstaklingum úr áðurnefndum hópi húsaskjól, félagslegan stuðning og endurhæfingu til hefja sjálfstæða búsetu og virka þátttöku í samfélaginu án neyslu áfengis- og vímuefna.

Fjórir aðilar lýstu upphaflega yfir áhuga á að ganga til samninga um búsetuúrræðið. Sérstaklega er tekið fram í fylgigögnum með tillögu Velferðarráðs að SÁÁ eigi að baki langa og farsæla reynslu af þjónustu og vinnu með einstaklingum og fjölskyldum vegna áfengis- og vímuefnavanda. Við núverandi efnahagsaðstæður sé slíkt talið ótvíræður kostur. Umfang SÁÁ og þeirrar þjónustu samtakanna á sviði meðferðar og forvarna gefi auk þess möguleika á hagræðingu og samþættingu þjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert