Ekki er heimild í lögum til að frysta eða kyrrsetja eignir hluthafa í fjármálafyrirtækjum nema að rökstuddur grunur um lögbrot sé fyrir hendi. Þetta kemur fram í minnisblaði nefndasviðs Alþingis sem lagt var fyrir viðskiptanefnd þingsins í morgun en VG óskaði eftir því að kannaðar væri lagalegar forsendur þess að kyrrsetja eignir auðmanna.
„Þó eru til staðar ýmis ákvæði sem heimila kyrrsetningu í tengslum við athafnir á fjármálamarkaði og einnig í tengslum við almenn hegningarlög og lög um meðferð opinberra mála en þá er ætið sett fram skilyrði um a.m.k. rökstuddan grun um brot. Með hliðsjón af stjórnarskrárvernd eignarréttarins og skorti á persónulegri ábyrgð hluthafa í hlutafélögum er nauðsynlegt að gæta meðalhófs við uppgjörið eftir fall bankanna og miða þannig við aðgerðir sem eru hvað minnst íþyngjandi en ná þó takmarki sínu,“ segir jafnframt í minnisblaðinu.