Tvö tilfelli innflúensu hafa greinst í ágúst og september hérlendis og er það merki um að flensan sér farin að hreiðra um sig, þótt ekki sé enn neinn faraldur í gangi. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir hvetur fólk til þess að nota tækifærið að láta bólusetja sig áður en innflúensan nær sér á strik.
Sérstaklega er fólk sem starfar á heilbrigðis- og umönnunarsviði hvatt til að fara í bólusetningu. „Það er vel þekkt að þeir sem annast veikt eða aldrað fólk geti borið innflúensu með sér inn á stofnanir," bendir Haraldur á. „Það hefur sýnt sig að bólusetning starfsfólks á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum er mjög gagnlegt aðgerð."
Þau skilaboð hafa hinsvegar borist frá áhyggjufullum forsvarsmönnum heilsugæslustöðva að fólk hafi almennt lítinn áhuga fyrir bólusetningum. „Yfirleitt kviknar áhugi fólks ekki á bólusetningum fyrr en innflúensan er komin," útskýrir Haraldur. „En ég tel upplagt að fólk noti tækifærið núna og láti bólusetja sig. Við höfum greint tvö innflúensutilvik af A og B stofni, þannig að innflúensan er til staðar og er að búa um sig. Við höfum því reiknað með að hún gæti komið fyrr en venjulega þetta árið."