Björgólfur Jóhannsson, formaður Landssamband íslenskra útvegsmanna, sagði á ársfundi samtakanna, að sambandið hafi farið fram á við sjávarútvegsráðherra að bætt verði 30 þúsund tonnum við aflamark yfirstandandi fiskveiðiárs.
Björgólfur gagnrýndi harðlega vaxtahækkun Seðlabankans úr 12 í 18% og sagði hana hafa verið ranga ákvörðun. Sagði hann að fyrirsjáanlegur væri mikill samdráttur í fjárfestingu og neyslu og við þær aðstæður þurfi að horfa fram á veginn en ekki í baksýnisspegilinn.
Björgólfur sagði, að fasteignabólan, sem hefði átt stóran þátt í verðbólgunni, væri sprungin. Eldsneytisverð, sem hefði verið mjög hátt á árinu, hefði lækkað mjög ört að undanförnu. Fyrirsjáanlegur væri mikill samdráttur í fjárfestingu og neyslu.
Björgólfur spurði hvaða ávinningur fælist í því fyrir íslenskt samfélag að kippa fótunum undan fyrirtækjum og heimilum og knýja þau jafnvel í þrot. Vaxtahækkun væri ekki trúverðug peningamálastefna heldur aðgerð sem væri til þess eins fallin að grafa undan hagkerfinu og fyrirtækjum og heimilum.
Í máli Björgólfs kom fram að efnahagsstefnan hlyti að koma til gagngerrar endurskoðunar á komandi vikum og mánuðum. Stjórnvöld yrðu að taka mið af stöðu atvinnuveganna og heimilanna.
Björgólfur sagðist einnig í ræðu sinni vera ósammála þeim sem vilja ganga í Evrópusambandið. ,,Við erum á hnjánum. Halda menn í einlægni að það sé einhver hundalúga á útihurð Evrópusambandsins?" spurði hann.