Gífurleg áhætta fylgir því að sniffa gas, bæði vegna þess að líffæri geta skaðast sökum súrefnisskorts auk mikillar eldhættu sem skapast þegar gasi er hleypt út í rými innandyra. Talið er að á hverju ári slasist fólk í gassprengingu hérlendis vegna sniffs þótt ekki séu afleiðingarnar í líkingu við það fjöldaslys sem varð í vinnuskúrnum í Grundargerðisgarðinum á mánudagskvöld.
Að sögn Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis á sjúkrahúsinu Vogi, er gas þeim eiginleikum gætt að það ryður frá sér súrefni og þegar einhver úðar gasinu ofan í lungun getur skapast súrefnisskortur í líffærum með tilheyrandi krampahættu.
„Við þessar aðstæður geta menn lent í líffærabilun,“ bendir hann á. Hjarta- og æðakerfi getur bilað auk þess sem heilinn verður fyrir súrefnisskorti. „Síðan er það eldhættan sem skapar enn meiri ógn,“ bætir hann við og segir það nánast árlegan viðburð hérlendis að sprenging verði við sniff á jarðgasi.
Sniff sem aðferð til að komast í vímu varð áberandi hérlendis í byrjun 9. áratugarins og ýmis efni hafa verið notuð, s.s. lím, þynnir, lakk og ýmsar gerðir af rokgjörnum efnum. Öll eru þessi efni stórhættuleg fyrir líffæri og þar er gasið engin undantekning. Gasið er afar fátítt meðal eldri notenda en helst hefur það verið tengt yngstu aldurshópunum og jafnframt er um mjög tímabundna neyslu að ræða. Mynstrið virðist vera þannig að unglingar í yngri kantinum fikta með gas, einkum á haustin, þegar skólar eru að byrja. Nefnir Þórarinn að varla sé hægt að tala um meira en nokkurra vikna fikttímabil í þessu sambandi.
Hvað snertir vímuáhrif gass á fólk virðist ekki sem gasið valdi vellíðunarkennd, heldur rugli fremur skynfæri og valdi um leið töluverðri vanlíðan. Að áliti Þórarins er því fremur illskiljanlegt hvers vegna fólk leitar í að sniffa gas. Helstu ástæðurnar gætu verið þær að gasið er einfaldlega oft innan seilingar.