Gústaf Baldvinsson, framkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood, dótturfyrirtækis Samherja sem annast meðal annars sölu á fiski á erlendum mörkuðum, einkum í Bretlandi, segir að markaðsaðstæður hafi breyst hratt í Bretlandi til hins verra á undanförnum þremur mánuðum.
„Við höfum fundið fyrir mikilli sölutregðu á þorski og ýsu,“ segir Gústaf. „Árferðið er erfitt og þessar dýrari afurðir hafa selst illa á öllum helstu mörkuðum.“
Gústaf segir almenna niðursveiflu í efnahagslífi Breta hafa mikil áhrif á sölu gæðavöru eins og fisks.
Heildarverðmæti sjávarútvegsafurða, sem seldar hafa verið úr landi, hefur verið um 120 milljarðar króna að meðaltali á ári á undanförnum árum. Þar hefur þorskur vegið þyngst eða tæplega 40%. Með auknu aðhaldi almennings minnkar eftirspurn eftir dýrari vörum og þó meira fáist fyrir afurðirnar vegna stöðu krónunnar bætir það ekki upp slæma stöðu á mörkuðunum.