Kynnisferðir, sem meðal annars sjá um rekstur Flugrútunnar, hafa sagt upp 21 starfsmanni, þar af 18 bílstjórum. Ástæðan er sögð hagræðing til að mæta nýju rekstrarumhverfi. Tilkynnt var um uppsagnirnar í dag.
Alls starfa um 70 bílstjórar hjá fyrirtækinu. Hinir þrír sem sagt var upp störfuðu á verkstæði og skrifstofu.
„Við þurfum að hagræða eins og önnur fyrirtæki og þetta er liður í því,“ sagði Einar Steinþórsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, um ástæður uppsagnanna í dag.
Að sögn Einars hefur ekki orðið samdráttur í verkefnum fyrirtækisins. Málið snúist fyrst og fremst um hagræðingu til að mæta auknum fjármagns- og rekstrarkostnaði.