Rætt var á kirkjuþingi í dag hvort athugandi væri að stjórnvöld afnæmu a tímabundið staðgreiðslu af neyðaraðstoð opinberra aðila. Þar er fyrst og fremst átt við fjárhagsaðstoð félagsþjónustu sveitarfélaga. Þeim sem fær neyðaraðstoð frá félagsþjónustu sveitarfélags ber að standa skil á 35,72% staðgreiðslu, líkt og öðrum tekjum, ef persónufrádráttur er fullnýttur.
Margir þeirra sem nú glíma við alvarlegan fjárhagsvanda fá ekki aðstoð samkvæmt núverandi viðmiðunarreglum. Kirkjuþing hvetur ríkisstjórn og sveitarfélög til að gefa sérstakan gaum að því.
Kirkjuþing ræðir nú tillögu til þingsályktunar vegna efnahagsþrenginga Íslendinga. Þar segir að efnahagsþrengingarnar snerti alla með einum eða öðrum hætti. Margir hafi glatað fjármunum og óvissa sé um atvinnu og efnahag heimilanna. Reiði, kvíði og jafnvel uppgjöf séu tilfinningar sem fylgja þessari óvissu.
„Þegar frá líður munu fást skýringar á þeirri atburðarás sem leiddi til þess ástands sem nú ríkir. Mikilvægt er að fram fari uppgjör og reikningsskil og að tími sannleikans verði tími sáttargjörðar í íslensku samfélagi. Ekki er síður mikilvægt að vinna úr tilfinningunum. Í aldanna rás hafa trúin, bænin og kærleikurinn veitt ómetanlegan stuðning til slíkrar úrvinnslu,“ segir í tillögunni.
Kirkjuþing hvetur sóknir, söfnuði og stofnanir kirkjunnar til að vera vakandi fyrir þeim sem þurfa aðstoðar við. Þar er annars vegar um andlega aðstoð að ræða en einnig efnahagslega aðstoð.
Þingfulltrúar á Kirkjuþingi samþykktu í upphafi þingsins að veita 1,5 milljónum króna til Hjálparstarfs kirkjunnar í ljósi verulega aukinnar þarfar. „Þá mun væntanlega koma frá fjárhagsnefnd þingsins tillaga um að fjármunir verði settir til hliðar til að astoða sóknir í starfi vegna þessa,“ segir Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, verkefnisstjóri á biskupsstofu.
Hjálparstarf kirkjunnar hefur að undanförnu fundið fyrir verulegri aukningu hjálparbeiðna innanlands. Margir sem koma eru að leita aðstoðar í fyrsta sinn.
Þá segir að ljóst sé að veturinn verði erfiður, víða verði samdráttur í þjóðfélaginu. Þegar staða heimilanna verði erfiðari, sé mikilvægara en nokkru sinni að styðja við börn og unglinga eftir megni og huga að andlegri og líkamlegri næringu þeirra. Kirkjuþing hvetur ríkisstjórn og sveitarfélög til að láta skólastarf og forvarnarstarf njóta forgangs þegar erfiðar ákvarðanir um niðurskurð eru teknar.