Bifreið síbrotamanns gerð upptæk

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur Þorkell Þorkelsson

Í síðustu viku var karlmaður á þrítugsaldri dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir  þjófnað og ítrekaðan sviptingar, ölvunar- og fíkniefnaakstur í Héraðsdómi Reykjavíkur. Maðurinn var jafnframt sviptur ökuréttindum ævilangt. Þá var bifreið hans gerð upptæk til ríkissjóðs en það er í fyrsta sinn sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fer fram á slíkt.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að ákæruvaldið hafi, með vísan til sakaferils mannsins, krafist upptöku bifreiðar í hans eigu með vísan til  umferðarlaga. Samkvæmt lögunum skal gera ökutæki upptækt þegar eigandi þess hefur verið dæmdur sekur eða gengist undir refsingu vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna eða undir áhrifum áfengis sem hefur í för með sér sviptingu ökuréttar og vínandamagn í blóði er 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lítra lofts sem hann andar frá sér nemur 0,60 milligrömmum eða meira, og viðkomandi hefur tvisvar síðustu þrjú árin fyrir brotið verið dæmdur sekur eða gengist undir refsingu fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis þar sem vínandamagn í blóði hefur mælst 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lítra lofts sem hann andar frá sér hefur numið 0,60 milligrömmum eða meira og sem hefur haft í för með sér sviptingu ökuréttar.

Manninum er gert að greiða 793.852 krónur í sakarkostnað, þar af málsvarnarþóknun skip­aðs verjanda 167.079 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert