Erlendum gestum til Reykjavíkur hefur fjölgað verulega nú á haustmánuðum, að sögn Höfuðborgarstofu. Gestum í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík, Aðalstræti 2 fjölgaði að meðaltali um 24% á í september og október og stefnir í að metfjöldi hafi heimsótt stöðina í lok árs eða um 260 þúsund manns.
Tölur um fjölda erlendra ferðamanna í Leifsstöð sýna að það komu tæplega 5000 fleiri ferðamenn í september 2008 og einsýnt að aukning verði töluverð fyrir október.
Gestir í Upplýsingamiðstöðinni sækja sér almennar ferðaupplýsingar, bóka ferðir, gistingu, afþreyingu og fleira. Einnig er hægt að fá þar endurgreiddan virðisaukaskatt af vörum sem keyptar eru meðan á Íslandsheimsókninni stendur, en þar er aukningin enn meiri en nemur auknum fjölda ferðamanna sem sýnir að ferðamenn versla mun meira en áður. Aukning á endurgreiðslu virðisauka í september var um 40% og bendir allt til að aukningin í október verði svipuð. Að auki hefur heildarupphæð útborgana hækkað um 74% sem þýðir að ferðamenn versla meira og dýrari vöru en áður. ´
Í tilkynningu Höfuðborgarstofu er haft eftir Ninnu Hafliðadóttur, framkvæmdastjóra verslunarsviðs hjá 66°Norður, að mikil aukning hafi orðið í verslun fyrirtækisins í Bankastræti, tvöföldun í sölu miðað við 2007 og líkur á að sama verði upp á teningnum fyrir október.
Hún segir Norðurlandabúa mest áberandi meðal kaupenda, en einnig Breta og að þeir kaupi bæði fleiri og dýrari vörur en áður og nýti sér þannig veikt gengi krónunnar. Hún segir ennfremur að þessi fjölgun hjálpi verulega upp á viðskiptin því október er alla jafna sá mánuður þar sem ferðamönnum til landsins fækki og að kaupgeta Íslendinga sé minni en þeir kaupi alla jafna mikið í vetrarbyrjun.
Halla Bogadóttir er framkvæmdastjóri Kraum Aðalstræti 10 en þar selja 80 íslenskir hönnuðir sínar vöru. Hún segist sömuleiðis merkja töluvert aukna verslun erlendra ferðamanna. Þeir kaupi meira og dýrari vöru en einnig sé áberandi hversu einbeittur kaupvilji þeirra er. Fleiri koma gagngert til að versla miðað við áður þegar stærri hluta gesta verslunarinnar komu til að skoða og velta hlutunum fyrir sér.
Haukur Gröndal, skrifstofustjóri hjá Sævari Karli í Bankastræti, segist hafa orðið var við mikla söluaukningu sem að stærstum hluta megi rekja til erlendra ferðamanna. Mest hafi þeir orðið varir við Norðurlandabúa og Rússa sem sækist eftir dýrum og vönduðum vörumerkjum í fatnaði á hagstæðu verði. Hann segir ennfremur að ferðamenn séu almennt vel meðvitaðir um hversu auðvelt er að verða sér út um endurgreiðslu virðisauka í miðborginni og að það hjálpi töluvert upp á viðskiptin.