Konur hafa í auknum mæli hringt í Kvennaathvarfið vegna ofbeldis af hálfu sambýlismanna eða eiginmanna og tengja þær það við álag vegna efnahagsþrenginganna, að sögn Hlífar Magnúsdóttur, starfskonu í Kvennaathvarfinu. Hætta sé á að heimilisofbeldi aukist í efnahagssamdrætti og starfskonur kvennaathvarfsins séu farnar að verða varar við það.
Enn sem komið er hafa vísbendingar um aukið ofbeldi einkum komið fram í símtölum við konur en ekki í aukinni aðsókn í athvarfið. „Við erum að búa okkur undir að það eigi virkilega eftir að aukast aðsókn hingað, því það gerist alltaf þegar svona er,“ segir Hlíf.
Undirbúningur Kvennaathvarfsins felst m.a. í því að búið er að taka húsið í gegn og fjölga rúmum. Hlíf segir að húsið hafi verið þéttskipað nánast allt þetta ár og aðsóknin sé mun meiri en í fyrra.