Fótspor Ingólfs við Alþingi

Fornleifagröfturinn er á 2.000 fm svæði vestan við Alþingishúsið þar …
Fornleifagröfturinn er á 2.000 fm svæði vestan við Alþingishúsið þar sem var elsta byggð í Reykjavík Kristinn Ingvarsson

Uppgröftur fornleifafræðinga á Alþingisreitnum í Reykjavík hefur leitt í ljós öflugt iðnaðarsvæði fyrir um 100 manna samfélag frá landnámstíma. M.a. hefur fundist í fyrsta skipti 10 metra langur viðarstígur sem uppgreftrarfólk hefur gantast með sín á milli að geymi fótspor Ingólfs Arnarsonar.

„Við erum búin að vera alveg á útopnu í nokkra daga,“ segir Vala Garðarsdóttir uppgraftarstjóri aðspurð hvort þetta sé ekki spennandi fundur fyrir fornleifafræðinga. „Við höfum aldrei fundið svona gamla strúktúra því að skálinn er í rauninni aðeins eldri en landnámsskálinn. Þetta er frá fyrstu tíð þannig að sumir sem voru að skoða þarna í dag hrópuðu að þarna væru bara fótspor Ingólfs á viðarstígnum.“ Leifarnar liggja rétt ofan á landnámslaginu og hefur engin jarðmyndun átt sér stað á milli.

Allt sem fundist hefur á svæðinu bendir til að þar hafi verið blómlegt iðnaðarsvæði með framleiðslu umfram þörf ábúenda, s.s. til vöruskipta. Þar hefur verð vegleg kolagröf, járnbræðsluofn og varnarveggur auk áðurnefnds viðarstígs sem Vala telur að hafi verið lagður til að halda svæðinu snyrtilegu.

„Þetta er fyrsti viðarstígurinn sem við finnum frá þessum tíma, ég hef aldrei grafið upp svona áður og það merkilegasta er að viðurinn er mjög heill.“ Það skýrist að sögn Völu af varðveisluskilyrðum jarðvegsins vegna mikils raka og súrefnisleysis.

Heilt þorp á blómlegu iðnaðarsvæði

Ýmiskonar iðnaður hefur verið á svæðinu, þar hefur t.d. viður verið kolaður og járn framleitt úr mýrarrauða sem smíðað var úr axir, sigðir, ljáir og sverð. Ýmsir munir hafa fundist á svæðinu, s.s. fiskisleggjur og brýni auk eldfæra. Á Alþingisreitnum virðist því hafa verið blómlegt atvinnulíf og giskar Vala á að um samfélagið í kring hafi talið um 100 manns. „Það er gaman að sjá þetta svona og maður ímyndar sér að þarna hafi verið heilt þorp í kring þar sem menn hafi stundað sinn iðnað.“

Vala segir líklega enga tilviljun að byggðinni hafi verið valinn staður þarna, þar sem allt sé við höndina. „Oft hefur verið undrast á því að menn hafi byggt bæ þarna í hlíðinni af því þar var mikið votlendi. En þarna er stutt í allan efnivið, bæði stutt að sækja í sjóinn og landið þar sem var gott byggingartorf og mýrarrauði. Svo var skógurin allt um kring þar sem fékkst birki til að kola viðinn.“

Uppgreftri verður haldið áfram á svæðinu í allan vetur og fram á næsta haust og vonast vísindamenn til að finna ýmsar fleiri minjar frá þessari elstu byggð Reykjavíkur. Fornleifanefnd hefur það nú til skoðunar hvernig varðveita megi fundina á svæðinu og segir Vala að tvennt sé í stöðunni, annars hvort að varðveita svæðið í óbreyttri mynd að skrá það eins vel og hægt sé og gera af því eftirmynd annars staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka