Fresta rannsóknarborunum að Þeistareykjum

Þeistareykir
Þeistareykir mbl.is/Birkir Fanndal

Landsvirkjun, Alcoa og Þeistareykir ehf, hafa í sameiningu ákveðið að fresta rannsóknarborunum að Þeistareykjum um sinn. Þetta er meðal annars gert vegna þess óvissuástands sem ríkir á fjármálamörkuðum. Ákvörðun um framhald borana mun bíða fram til haustsins 2009.

Landsvirkjun, Alcoa og Þeistareykir ehf. hafa unnið sameiginlega að undirbúningi jarðvarmavirkjana á Norðausturlandi vegna orkusölu til fyrirhugaðs álvers Alcoa á Bakka við Húsavík. Þetta samstarf hefur byggst á viljayfirlýsingu milli Landsvirkjunar og Alcoa frá í sumar.  Um verkefnið hefur verið náin samvinna við sveitarfélögin Norðurþing, Þingeyjarsveit og Skútustaðahrepp sem lagt hafa fram fjármuni og vinnu í undirbúning þess.

Viljayfirlýsing Landsvirkjunar og Alcoa rennur út nú um mánaðamótin október/nóvember. Í tilkynningu frá fyrirtækjunum segir að þau muni engu að síður hafa náið samband og samráð um framvindu mála með það að leiðarljósi að framlengja viljayfirlýsinguna og halda verkefninu áfram þegar aðstæður leyfa.

Þá segir að viljayfirlýsing milli ríkisstjórnar, Norðurþings og Alcoa standi óbreytt og það sama gildi um viljayfirlýsingu milli Landsnets og Alcoa.

Landsvirkjun, Alcoa, Þeistareykir ehf. og Landsnet munu vinna áfram við mat á umhverfisáhrifum verkefnanna; orkufyrirtækin við mat á umhverfisáhrifum rannsóknaborana og virkjana á Kröflu- og Þeistareykjasvæðinu og Alcoa við mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka og Landsnet vegna flutningslína.  Þessi vinna er liður í endanlegu mati á umhverfisáhrifum þessara framkvæmda og sameiginlegu mati á þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert