„Við erum náttúrlega búin að búast við þessu,“ segir Sigurjón Hjartarson, smiður hjá BYGG, sem sagt var upp í fyrradag. Hátt í 200 starfsmönnum fyrirtækisins hefur verið sagt upp. „Alla síðustu viku hefur stefnt í þetta,“ segir hann en hann mun hætta störfum í lok janúar.
„Menn eru hálfdofnir, samt mörgum létt á vissan hátt þar sem það ríkti mikil óvissa. Það er samt fullur skilningur á þessu, hvað er að gerast í þjóðfélaginu. Svo vonar maður auðvitað það besta.“ Sigurjón segist ekki vita hvað tekur við nema hvað nú taki við að skoða og segist hann vera opinn fyrir öllu, þ.m.t. vinnu erlendis. Hann heldur að aðrir iðnaðarmenn sem fengu reisupassann reyni að vera á landinu og leita annarrar vinnu eins lengi og hægt er en svo megi gera ráð fyrir að margir haldi utan til starfa. ylfa@mbl.is