„Atvinnuleysi á Íslandi er nú 2,3% og hefur aukist hratt á síðustu vikum. Í byrjun þessa árs voru um 1.500 manns skráðir atvinnulausir en um 2.500 í lok september,“ þetta kom fram í máli Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra á ársfundi Vinnumálastofnunar í dag. Stofnunin spáir 7% atvinnuleysi í lok janúar næsta árs.
Atvinnuleysi er nú 2,3% og hefur aukist hratt á síðustu vikum. Við lokun hjá Vinnumálastofnun í gær voru 4.140 skráðir án atvinnu og hafa 50-70 skráð sig atvinnulausa á degi hverjum hjá skrifstofu Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu. Á öðrum skrifstofum stofnunarinnar er samanlagður fjöldi nýskráninga á bilinu 30 til 40 á dag.
Hér má finna nánari upplýsingar um innihald frumvarpsins
Rafræn umsókn um atvinnuleysisbætur
Í dag verður opnuð ný vefgátt fyrir rafræna umsókn um atvinnuleysisbætur og er það liður í aukinni þjónustu Vinnumálastofnunar á tímum aukinna uppsagna.
Vefgáttin verður sett upp til reynslu um helgina og er vonast til að hún verði komin í fulla notkun í næstu viku. „Vefgáttin er enn einn liðurinn í að auka skilvirkni í afgreiðslu stofnunarinnar“ sagði Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar á ársþingi stofnunarinnar í dag. Umsækjendur geta því sótt um á vef Vinnumálastofnunar en þurfa samt sem áður að afla nauðsynlegra vottorða, skila inn til stofnunarinnar innan 14 daga og skrifa undir umsóknina.
Tengil inn á vefsíðu Vinnumálastofnunar er að finna hér