„Það þarf að senda skýr skilaboð um að slík háttsemi sé ekki liðin hér á landi,“ sagði Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara þegar hún í málflutningsræðu sinni í gær fjallaði um hvaða refsingu þeir ættu skilið, mennirnir fjórir sem sakaðir eru um hrottalega líkamsárás í Keilufelli í mars á þessu ári.
Þeir eru ákærðir fyrir að ráðast, ásamt fleirum, að sjö Pólverjum sem þar voru búsettir með bareflum. Kolbrún taldi að þeir ættu að lágmarki að fá 2-3 ára dóm.
Aðalmeðferð málsins lauk í gær. Kolbrún sagði að næg sönnunargögn, m.a. blóð í fötum árásarmannanna, sýndu fram á sekt þeirra og að framburður þeirra um sakleysi eða minnisleysi, nema hvort tveggja væri, væri ekki trúverðugur. Þá væri ekki hægt að ætlast til þess að fórnarlömbin gætu í öllum tilvikum þekkt eða nafngreint árásarmennina enda hefði árásin verið án fyrirvara og þeir sem fyrir henni urðu hefðu átt fullt í fangi við að víkja sér undan höggum. Mennirnir hefðu framið árásina í sameiningu og bæru sameiginlega refsiábyrgð.
Málið horfði allt öðruvísi við verjendunum sem kröfðust sýknu enda hefði ákæruvaldinu ekki tekist að sýna fram á sekt hinna ákærðu. Þótt blóð úr fórnarlömbunum hefði fundist á fatnaði allra ákærðu sannaði það ekki sekt því blóðið hefði getað borist í fatnaðinn þegar þeir rákust utan í árásarmenn. Enginn sönnun væri fyrir aðild þeirra að árásinni.