Aðvörunin verði rannsökuð

Brown réttir einhverjum öðrum en Íslendingum höndina.
Brown réttir einhverjum öðrum en Íslendingum höndina. Reuters

Vince Cable, talsmaður Frjálslyndra demókrata í efnahagsmálum, fer fram á að breska stjórnin svari fyrir þær nýju upplýsingar að hún hafi vitað um fjármálavandann á Íslandi. Upptök málsins eru fréttaskýring á Channel 4, þar sem vitnað var til fundar forsætisráðherranna Geirs H. Haarde og Gordons Browns í apríl.

Í umfjöllun vefútgáfu Morgunblaðsins um málið segir:

Geir H. Haarde forsætisráðherra aðvaraði Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, við því í apríl að íslenska fjármálakerfið stæði frammi fyrir miklum erfiðleikum. Þessu er haldið fram í fréttaskýringaþætti Channel 4, að því er fram kemur á vef dagblaðsins í The Daily Telegraph.

Vísað er til fundar Geirs með Brown að Downing Stræti 10, aðsetri breska forsætisráðherrans, í apríl, þar sem þeir hafi rætt ýmis vandamál í íslenska bankakerfinu. Er Brown sagður hafa ráðlagt Geir að snúa sér beint til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMF, um aðstoð til handa Íslendingum.

Segir þar að á sama tíma hafi Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka,  látið aðstoðarmenn sína framkvæma áhættumat á íslensku bönkunum. Um líkt leyti hafi Englandsbanki hafnað beiðni Íslendinga um að koma krónunni til hjálpar, þegar erlendir fjárfestar veðjuðu á óstöðugleika í íslenska hagkerfinu.

Kemur þar einnig fram að í byrjun árs hafi borið á efasemdum í bresku blöðunum og á meðal fjárfesta í City, fjármálahverfi Lundúnaborgar, um styrk íslensku bankanna. Þrátt fyrir það hafi breska stjórnin og Englandsbanki ekki tjáð sig um hugsanlega áhættu af fjárfestingum tengdum íslenskum fjármálafyrirtækjum.  

Reynist þetta rétt kunna spjótin að berast að Brown, fjármálaráðherra Tonys Blairs á árunum 1997 til 2007, og hvernig hann hundsaði ofangreindar viðvaranir.

Á sínum tíma sköpuðust nokkrar umræður í kjölfar fundarins vegna þeirra upplýsinga á vef breska forsætisráðuneytisins að leiðtogarnir hefðu rætt auknar líkur á aðildarviðræðum Íslendinga um möguleika á inngöngu í ESB.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka