Í umræðum Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Gordons Browns, forsætisráðherra Bretlands, á fundi þeirra að Downingstræti í Lundúnum í apríl, kom ekki fram sú hugmynd að Ísland leitaði eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMF þótt sjóðinn hafi borið á góma í samtalinu.
Þetta segir Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarmaður Geirs, en eins og komið hefur fram á mbl.is þá er greint frá því á vef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Brown hafði ráðlagt Íslendingum að leita til sjóðsins.
Gréta segir leiðtoganna einnig hafa rætt um stöðu íslenskra fyrirtækja í Bretlandi og hugsanlega aðild íslands að samstarfi Evrópuríkja til að tryggja fjárhagslegan stöðugleika. Það mál hafi svo farið í vinnslu og verið afgreitt síðar.
Á fundinum hafi einnig verið fjallað um ástand og horfur í alþjóðlegum efnahags- og fjármálum og áhrif breyttra aðstæðna á fjámálamörkuðum á Íslandi og í Bretlandi. Þá hafi verið ákveðið að ljúka gerð viljayfirlýsingar Íslands og Bretlands um öryggismálasamstarf á friðartímum sem fól í sér reglulegt samráð og samræmingu, auk þess sem bresk stjórnvöld hafi lýst yfir áhuga á þátttöku í loftrýmiseftirliti yfir Íslandi.
Ennfremur hafi forsætisráðherrarnir rætt Evrópumál, loftlags- og orkumál, hvalveiðar og framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Loks hafi þeir farið yfir gang viðræðna um skiptingu Hatton-Rockall svæðisins.