Stærsta slökkviliðsaðgerð ársins í Vesturbyggð

Vestri BA er 200 brúttólesta dragnóta- og togskip í eigu …
Vestri BA er 200 brúttólesta dragnóta- og togskip í eigu Vestra ehf. á Patreksfirði. Bæjarins Besta

Slökkvilið Vesturbyggðar hefur unnið að því lungann úr deginum að slökkva eld sem kom upp í fiskveiðiskipinu Vestra BA. Útkallið barst rétt fyrir tvö í dag og var búið að slökkva eldinn kortér fyrir þrjú í dag. Síðan hefur eldurinn komið upp aftur og er slökkvilið enn á vettvangi að berjast við eld. Skipið liggur við bryggju í Patreksfjarðarhöfn.

Davíð Rúnar Gunnarsson slökkviliðsstjóri segir þetta stærstu slökkviliðsaðgerð í Vesturbyggð það sem af er árinu. Fimm slökkviliðsbílar voru kallaðir á vettvang, frá Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Reykur í skipinu var mikill, en eldurinn kom upp á milli þilja í rými undir brú skipsins, þar sem mikið er af raflögnum og rafgeymar eru einnig. Hann reiknar með því að verða á vettvangi í einn eða tvo klukkutíma til viðbótar, þar til búið verður að komast fyrir eldinn endanlega.

Þá reiknar Davíð með því að vakt slökkviliðs verði höfð við skipið í alla nótt, enda glóðin á milli þiljanna mjög lífseig og óaðgengileg.

Reykkafarar byrjuðu á því að fullvissa sig um að enginn væri í skipinu. Davíð segir að menn hafi skipst á því að kafa, en allt að sextán reykkafarar fóru inn í skipið til skiptis. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert