Formaco er eitt fjölmargra fyrirtækja sem líða fyrir hrun bankakerfisins og ómöguleg gjaldeyrisviðskipti. Greiðsla frá fyrirtækinu til Danmerkur, sem reidd var af hendi fyrir um tveimur vikum, er enn týnd í bankakerfinu og hefur ekki skilað sér til birgisins í Danmörku, að sögn Ragnars Jóhannssonar framkvæmdastjóra.
Greiðslan hljóðaði upp á u.þ.b. 280.000 danskar krónur og var reidd af hendi til að koma hreyfingu á vörusendingu til landsins að andvirði um 30 milljónir íslenskra króna. Greiðslan fór í gegnum Landsbankann og hefur ekki sést síðan. Fátt hefur verið um svör þegar Ragnar hefur spurst fyrir um þetta.
Að vonum kemur þetta sér mjög illa fyrir starfsemi Formaco og hindrar fyrirtækið í að skapa sér tekjur. Ragnar segir tíma til kominn að ráðamenn vakni til vitundar um að ef atvinnulífið eigi að búa við aðstæður sem þessar til lengdar verði flestir komnir á atvinnuleysisskrá áður en langt um líður.
Formaco var stofnað 1997 og hefur framleitt glugga og flutt inn efni og búnað fyrir byggingarverktaka. Fyrirtækið sagði upp starfssamningum við um 70 starfsmenn fyrir mánaðamótin vegna samdráttur á byggingamarkaði.