Fjölmiðlar víða um heim hafa fjallað um þá deilu, sem er milli Breta og Íslendinga vegna þeirra aðgerða breskra stjórnvalda að beita lögum um varnir gegn hryðjuverkum til að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi. Bandaríska stórblaðið New York Times segir ýtarlega frá málinu í dag og ræðir m.a. við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra.
„Ég skal viðurkenna, að ég var gersamlega höggdofa," segir Ingibjörg Sólrún um það hvernig henni varð við þegar hún sá nafn Landsbankans á lista með al-Qaeda, Súdan og Norður-Kóreu á heimasíðu breska fjármálaráðuneytisins.
Hún segir, að ákvörðun Breta hafi í raun leitt til þess að Ísland sé í svipaðri stöðu nú og það var fyrir 30-40 árum þegar það var einangrað fátækt land, að mestu háð fiskveiðum.
„Þetta er meiriháttar kreppa," segir hún. „Við höfum sennilega aldrei verið í slíkri stöðu fyrr. Við þurfum stuðning frá samstarfsríkjum okkar, vinsamlegum ríkjum og við héldum að Bretland væri eitt af þeim."