Fundað var með starfsmönnum verslana BT í dag. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvað kom fram á fundinum. Í tilkynningu frá Sverri Berg Steinarssyni, forstjóra Árdegis, segir að farið hafi verið yfir stöðu mála á fundinum en viðræður standi yfir um sölu á BT-verslunum.
Í tilkynningu frá Sverri segir að farið hafi verið yfir stöðu mála á fundinum og að vonandi verði hægt að skýra frá lausnum eftir helgina.
Í framhaldi af greiðslustöðvun dönsku verslunarkeðjunnar Merlin um síðustu helgi hafi verið ljóst að Árdegi yrði fyrir miklum búsifjum. Staða félagsins og dótturfélaga þess hafi verið mjög tvísýn og allt verið gert til þess að bjarga verðmætum og tryggja stöðu starfsmanna.
Enn sé unnið að lausnum er tryggja áframhaldandi rekstur verslana BT og annarra verslana í eigu Árdegis. Lokað verði í verslunum BT um helgina þar til niðurstaða fáist úr þeim viðræðum sem nú standi yfir um sölu á verslununum.