Forsíða Morgunblaðsins er andlit blaðsins, sem hefur sett upp ýmis svipbrigði á 95 árum. Aðalefni fyrstu forsíðunnar var ávarp ritstjórans en auk þess voru þar fréttir og auglýsingar. Fyrstu fréttamyndirnar birtust auðvitað á forsíðunni; sú erlenda var af stærsta skipi heims og fylgdi frétt um það, sú innlenda var af bænum Dúkskoti í Reykjavík; dúkrista gerð af Bang bíóstjóra.
Upp úr 1920 tóku auglýsingar forsíðuna yfir og trónuðu þar fram á fimmta áratuginn, en þegar til stóratburða kom lögðu þeir forsíðuna undir sig.
Um mitt ár 1943 var blaðið stækkað í 12 síður, útsíðurnar lagðar undir fréttir og báðar blandaðar. Erlendar fréttir tóku svo forsíðuna smám saman yfir, en innlendir stóratburðir viku þeim jafnan til hliðar.
Á 89. afmælisdaginn, 2. nóvember 2002, tók forsíða Morgunblaðsins enn einum stakkaskiptum, varð landamæralaus og flutti bæði innlendar fréttir og erlendar. Þremur árum síðar var vægi erlendu fréttanna á forsíðunni minnkað.