EFF2 Technologies hefur þróað kerfi sem hjálpar lögreglunni að leita að barnaklámi í þeim tölvum sem hún leggur hald á. Lögreglan stefnir á að taka tæknina í notkun á fyrsta ársfjórðungi 2009 en kerfið ber nafnið Videntifier Forensic.
„Núna þurfum við að skoða hverja einustu ljósmynd og hreyfimynd í tölvum sem við fáum inn. Þetta er ofboðslega tímafrekt og eitthvert það ömurlegasta verk sem hægt er að vinna,“ segir Steinarr Kr. Ómarsson, lögreglufulltrúi í tölvurannsókna- og rafeindadeild LRH.
Kerfið gerir lögreglunni kleift að minnka tímann sem fer í að horfa á efnið með því að taka út allt efni sem þekkt er fyrir. „Þessi aðferð hefur kosti fram yfir aðrar sem verið er að nota í dag. Hún virkar þó það sé búið að stytta myndina eða breyta henni,“ segir Steinarr en lögreglan keyrir búnað frá Eff2 á þær myndir sem hún er þegar búin að bera kennsl á sem ólöglegt barnaklámsefni.
„Þannig verður til gagnagrunnur sem við getum notað til að þekkja myndirnar og innan úr þeim,“ segir hann og bætir við að þetta spari lögreglunni ómældan tíma sem hægt sé að nota öðruvísi, en hún hefur 60 daga til að rannsaka kynferðisbrot.
„Ef kerfið yrði tekið í notkun í fleiri löndum gæti seinna meir verið hægt að nota það til að rannsaka dreifingu á barnaklámi með því að sjá hvar og hvenær ákveðnar myndir finnast,“ segir Steinarr.
„Við höfum nú þegar kynnt þetta fyrir lögreglustjórum á hinum Norðurlöndunum,“ segir Friðrik Heiðar Ásmundsson, tæknistjóri og annar stofnandi hátæknifyrirtækisins, en gagnagrunnurinn hefur verið í þróun síðastliðin fimm ár.
„Þetta byrjaði sem rannsóknarverkefni í Háskólanum í Reykjavík. Núna er þeirri vinnu að mestu lokið og við erum mjög spenntir að þróa þessa lausn áfram með lögreglunni. Það er mikil þörf á svona kerfi í heiminum þannig að við erum bjartsýnir á framhaldið.“ Morgunblaðið er með ítarlega umfjöllun um sprotafyrirtæki á borð við Eff2 í blaðinu í dag.