Rjúpnaskyttan sem villtist af leið við Beilárheiði við Langavatn á Mýrum fyrr í kvöld fannst nú skömmu fyrir miðnætti heil á húfi. Alls tóku 70 leitarmenn úr fjórum björgunarsveitum þátt í leitinni.
Maðurinn var við veiðar ásamt félaga sínum en skilaði sér ekki í bíl þeirra á tilsettum tíma seinnipartinn í dag. Hann var þó í talstöðvarsambandi fyrst um sinn og gat látið vita af sér til að byrja með.
Björgunarsveitarmenn úr Slysavarnafélagi Landsbjargar frá Akranesi, Borgarnesi, Varmalandi og Reykholti tóku þátt í leitinni sem tók tæpar 4 klukkustundir.