Tilbúin að endurskoða afstöðu sína

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Íslendingar verða að fara að ræða alvarlega Evrópusambandið, hvort sem þeim líkar betur eða verr, að mati Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Þetta kom fram í þættinum Mannamáli á Stöð 2 í kvöld.

„Ég hef alla tíð verið mikill efasemdamaður og eindregið stutt þá stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett fram. Við höfum einfaldlega metið hagsmunina út frá því að við teljum að EES hafi sinnt okkar þörfum, okkar hagsmunum og þess vegna höfum við sagt að við eigum að vera utan ESB,“ sagði hún.

„Núna eru einfaldlega aðstæður allt aðrar, það eru komnir nýir tímar. Fjármálakerfið er hrunið og það er alþjóðleg kreppa þannig að okkur ber skylda til að horfast í augu við þessa nýju tíma og meta hagsmunina upp á nýtt [...]  Við eigum að meta þá sem fyrst, okkar hagsmuni, til þess að geta sagt við fólkið okkar hvert við ætlum að fara í framtíðinni. Hvert okkar leið liggur til lengri tíma litið.

Þá verðum við hvort sem okkur líkar það betur eða verr að ræða Evrópusambandið mjög alvarlega, verðum að fara yfir það og ef hagsmunamatið segir það að okkar hagsmunum sé betur borgið með því að fara inn í Evrópusambandið, og ég undirstrika að það er engin töfralausn, það eru líka gallar á Evrópusambandinu, en ef hagsmunanmatið er þannig að það segir okkur „sækjum um aðild, látum reyna á þetta,“ þá er ég tilbúin til að endurskoða mína afstöðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert