Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði í Silfri Egils í sjónvarpinu í dag, að óumflýjanlegur hluti af því að takast á við það sem framundan sé í þjóðfélaginu sé að kjósa á ný til Alþingis um leið og aðstæður leyfa.
Sagðist hann vona, að forsendur hafi skapast fyrir því í mars eða apríl að hægt verði að boða til kosninga.
Steingrímur sagðist ekki vera tilbúinn til að taka þátt í að mynda nýja ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki eða öðrum flokkum ef það slitnaði upp úr núverandi stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á næstunni. Hugsanlegt væri þó, ef slík staða kæmi upp, að VG tæki þátt í bráðabirgðastjórn sem starfaði fram að kosningum.
Skoðanakannanir, sem birtar hafa verið síðustu daga, benda til þess að VG njóti nú næst mest fylgis íslenskra stjórnmálaflokka á eftir Samfylkingunni.
Steingrímur sagðist vilja, að hér yrði byggt upp blandað hagkerfi í norrænum anda þar sem ríkið sér um velferðarþjónustuna og tryggi innviði samfélagsins en markaðurinn sjái um tiltekin verkefni samkvæmt skýrum reglum.´
Þá sagðist Steingrímur leggja áherslu á að konur yrðu að vera fullgildir þátttekendur í uppbyggingu nýja Íslands.