Vill gefa Íslendingum 300 milljónirnar

Frá Færeyjum.
Frá Færeyjum. mbl.is/

Færeyskur atvinnurekandi vill að Færeyingar gefi Íslendingum þær 300 milljónir danskra króna, sem færeysk stjórnvöld hafa samþykkt að lána Íslandi.

„Þeir sem fengu hugmyndina um að lána Íslendingum 300 milljónir eiga heiður skilinn. Ég tel hins vegar að Færeyingar eigi að gefa Íslendingum þessa fjármuni. Í mörg ár hafa Færeyingar fengið veiðiréttindi nánast endurgjaldslaust í íslenskri lögsögu, réttindi  sem hafa haft mikla þýðingu fyrir veiðiflotann okkar," segir Johan Mortensen við vefinn olivant.fo og bætir við, að þessu hafi Íslendingar haldið áfram þótt þeir hafi neyðst til að skera veiðiheimildir í botnfiski mikið niður undanfarin ár.

Hann segir, að 300 milljónir séu að sjálfsögðu há upphæð en enginn vafi sé í hans huga um að Færeyingar eigi að rétta nágrönnum sínum í vestri hjálparhönd og gefa Íslendingum þessa peninga.

„Íslendingar hafa alltaf rétt Færeyingum hjálparhönd og eigum við að endurgjalda þegar Ísland berst við mestu fjármálakreppu sögunnar," segir Mortensen.

Hann áætlar að veiðiheimilir Færeyinga í íslenskri lögsögu megi meta á 70 milljónir danskra króna og þá sé ekki reiknað með þeim verðmætum og störfum, sem veiðin hafi skapað í Færeyjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka