„Það liggur ekkert annað fyrir en að af kaupum Árvakurs á Fréttablaðinu verði. Við höfum engar vísbendingar um að 365 vilji taka upp þessa samninga,“ segir Þór Sigfússon, stjórnarformaður Árvakurs.
Hann vísar til umræðna í kjölfar gernings helgarinnar, þegar Rauðsól, félag í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, keypti fjölmiðlahluta 365 út úr 365 hf. fyrir 1,5 milljarða króna. Auk þess tekur Rauðsól yfir 4,4 milljarða króna af skuldum 365 hf.
10. október síðastliðinn var tilkynnt að samkomulag hefði tekist um sameiningu Árvakurs, Fréttablaðsins og Pósthússins en samkvæmt samkomulaginu kemur 365 hf. inn í hluthafahóp Árvakurs með 36,5% hlut. Þór Sigfússon segir mikilvægt að þetta gangi eftir.
„Þetta er hluti af vinnu sem hefur farið hér fram með það að markmiði að treysta rekstrargrundvöll Morgunblaðsins og mbl.is og sú vinna gengur vel. Það skiptir miklu í þessari vinnu að þessi samruni blaðanna í einu útgáfufyrirtæki gangi eftir. Þannig næst hámarkshagræðing,“ Segir Þór.
Hann segir framtíðarsýnina skýra um starfsemi Árvakurs. Reksturinn þurfi að skila góðri afkomu, þannig verði sjálfstæði fjölmiðlanna best tryggt.
„Við stefnum að því að dreifa eignaraðild og við vinnum í samræmi við skýrar starfsreglur um stjórnarhætti og kraftmikla og sjálfstæða ritstjórn. Teymi stjórnenda og ritstjórnar er á réttri leið. Það hefur verið tekið til í rekstrinum undanfarin ár og Morgunblaðið og mbl.is eru sannarlega á réttri leið. Við erum með betri uppbyggingu rekstrarins og betri vöru. Þetta kemur vel fram í útgáfu síðustu vikna og auðvitað vísbendingum um verulega meiri lestur en áður á Morgunblaðinu og metlestur á mbl.is. En vitaskuld erum við eins og önnur fyrirtæki í landinu að fást við gífurlega erfiðar aðstæður og við því erum við að bregðast,“ segir Þór.
Hann leggur áherslu á það markmið að Árvakur verði með dreifða eignaraðild og að enginn einn verði yfirgnæfandi.
„Allir stærstu hluthafar í Árvakri hafa áhuga fyrir því að svo verði. Árvakur á að verða í mínum huga almenningshlutafélag þegar horft er til næstu ára. Morgunblaðið gegnir mjög mikilvægu hlutverki í þessu samfélagi og því er best sinnt með því að traust ríki gagnvart blaðinu og að ólík sjónarmið fái rými. Við munum því breikka hluthafahópinn. Fjölbreytt eignarhald er mikilvægt í þessum rekstri til þess að auka traust. Ég vonast til þess að þegar við leggjum fram áætlun í samstarfi við viðskiptabanka okkar, Glitni, um traustan rekstur þá köllum við eftir breiðum hópi nýrra hluthafa, smárra hluthafa, lífeyrissjóða og annarra sem hafa áhuga fyrir því að hér séu öflugir, óháðir og góðir miðlar,“ segir Þór Sigfússon, stjórnarformaður Árvakurs.
"Við erum með einstakt tækifæri til þess að byggja öflugt fyrirtæki í dagblaðarekstri og vefmiðlun. Við viljum vera í fararbroddi með nýjungar í okkar stjórnarháttum, sem geta vonandi orðið fyrirmynd annarra. Við leggjum áherslu á að Árvakur verði með skýrar starfsreglur um stjórnarhætti fyrirtækisins sem skerpi ábyrgð og efli hlutverk stjórnar. Ég hef mikla trú á því að bættir stjórnarhættir í fyrirtækjum skapi meiri festu, auki fagmennsku og arð þegar til lengdar lætur,“ segir Þór.
Hann bætir við að stjórn félagsins eigi að sínu viti að vera samsett af einstaklingum með ólíka þekkingu og bakgrunn. Stjórnin gæti fyrst og fremst hagsmuna hluthafa en það sé líka mikilvægt í fjölmiðlafyrirtæki að í stjórninni sé ákveðin breidd og hún endurspegli fjölbreytt sjónarmið.