Framboð á sumarbústöðum hefur aukist síðustu vikur, að sögn Magnúsar Leópoldssonar á Fasteignamiðstöðinni. Síðustu vikur hefur þó ekki verið mikið um sölur á sumarbústöðum frekar en almennt á fasteignamarkaðnum.
„Það er byrjað að kreppa að og þá vilja menn fyrst losa sig við sumarbústaði,“ segir Magnús. „Ég er því miður hræddur um að eitthvað af bústöðum fari fyrst í gegnum bankakerfið áður en þeir koma í sölu hjá fasteignasala,“ segir Magnús.
Hann bendir á að algengt hafi verið að bústaður fyrir 20 milljónir króna hafi að mestu verið fjármagnaður með erlendu láni. Bústaðurinn hafi ekki hækkað, en það hafi lánið gert svo um munar í mörgum tilvikum.