Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir ljóst að ákvörðun Alcoa um að fresta rannsóknum fyrir um tvo milljarða á Þeistareykjum, dragi úr líkunum á því að álver rísi á Bakka við Húsavík. „Okkur væri nær að huga heldur að fjölbreyttara atvinnulífi,“ segir Bergur.
Ljóst er að margir Húsvíkingar vilja að álverið rísi, enda muni það auka mjög atvinnumöguleika í landshlutanum. Spurður hvort hann sjái eitthvað annað í spilunum fyrir þá segir Bergur að þeir búi við sama vanda og aðrir á Íslandi í dag. „Starf í álveri er mjög dýrt starf. Íslendingar eru ekki fjárhagslega mjög rík þjóð í dag.“ Vandi vegna atvinnuleysis sé ekki bundinn við einstaka landshluta.