Eftir að 365 samþykkti á fundi sínum síðdegis í fyrradag, að sérstakt félag í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar keypti út úr 365 fjölmiðlahluta félagsins, þ.e. Stöð 2, Stöð 2 Sport, Bylgjuna og Fréttablaðið, er ekki lengur áhugi fyrir hendi hjá aðaleigendum 365 að standa við samninginn um að Fréttablaðið sameinist Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, og 365 eignist þar með 36,5% í Árvakri.
Félagið, Rauðsól, býður 1,5 milljarða króna í fjölmiðlahlutann, ásamt yfirtöku á ákveðnum hluta á skuldum 365. Ari Edwald forstjóri 365 segir að kaupverðið sé samtals 5,9 milljarðar króna. Landsbankinn hefur
enn ekki staðfest kaupsamninginn.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verða þesssir 1,5 milljarðar króna notaðir til þess að greiða upp skuldabréfaflokk sem er á gjalddaga nú á miðvikudag, þann 5. nóvember. Nýtt hlutafé, 1,5 milljarðar króna, í reiðufé kæmi inn í félagið, sem yrði nýtt til þess að greiða niður skuldir 365. Glitnir, lífeyrissjóðir og fleiri eiga skuldabréfaflokkinn, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Stjórn 365 samþykkti tilboðið með öllum greiddum atkvæðum nema einu en Árni Hauksson greiddi atkvæði gegn tillögunni og sagði sig úr stjórn 365 í kjölfarið. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins beindist aðalgagnrýni Árna Haukssonar, fyrrverandi stjórnarmanns, að því að Jón Ásgeir hygðist með þeirri tillögu sem Einar Þór Sverrisson lögmaður bar upp á stjórnarfundinum taka út úr félaginu kjarnastarfsemina og skilja vonlitlar einingar og miklar skuldir eftir í 365.
Ari kvaðst ekki telja að þessi uppskipti hjá 365 hefðu nein áhrif á þann samning sem kominn er á milli Árvakurs og 365 vegna sameiningar Fréttablaðsins og Pósthússins við Árvakur.
Samkvæmt heimildum frá 365 er þar lítill vilji fyrir hendi að láta samninginn við Árvakur standa. 365 munu vilja kanna hvort ekki verði hægt að ná fram þeirri hagræðingu sem fælist í því að samnýta prentun og dreifingu, en áhuginn á eignarhlut í Árvakri mun ekki lengur vera fyrir hendi.
Heimildir Morgunblaðsins herma að heildarskuldir 365 hafi numið um 11 milljörðum króna, þar af um 5,2 milljörðum króna í Landsbankanum.
Tilkynnt var 10. október um sameiningu Árvakurs, Fréttablaðsins og Pósthússins. Samkvæmt samningnum kom 365 hf. inn í hluthafahóp Árvakurs með 36,5% hlut. Samruninn var háður samþykki hluthafafunda félaganna og Samkeppniseftirlitsins sem liggur ekki fyrir enn.