Sendibifreið skemmdist mikið í bruna skömmu eftir miðnætti í nótt á hafnarsvæðinu í Hafnarfirði. Nokkru fyrr brunnu tveir hraðbátar á svæði Bátasmiðju Guðmundar. Að sögn lögreglu eru eldsupptök í bifreiðinni óljós en hann var í kyrrstöðu og ekki í gangi þegar eldurinn braust út.
Grunur leikur á því að kveikt hafi verið í bílnum en það hefur þó ekki verið rannsakað sérstaklega. Nokkuð hefur verið um bílabruna á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri. Flestir brunarnir eiga það sameiginlegt að kviknað hefur í þeim í kyrrstöðu og án þess að þeir séu í gangi. Líklegt þykir að kveikt hafi verið í þeim en líkt og með sendibifreiðarbrunann í Hafnarfirði, hefur ekki verið til lykta leitt hvort um íkveikju var að ræða.