Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, undirstrikaði djúp og sterk tengsl Noregs og Íslands í fyrirlestri sínum um sameiginlega hagsmuni þjóðanna tveggja í Háskóla Íslands í dag. Hann benti á að þjóðirnar væru grannar og þær ættu sameiginleg hagsmunamál m.a. í sameiginlegum auðlindum og því þyrfti að takast á við stór pólítísk mál í sameiningu. Því hefðu Norðmenn mikinn áhuga á því hvernig takist til á Íslandi við lausn efnahagsmálanna.
Hann sagði að efnahagskreppan væri alþjóðleg þótt vissulega kæmi hún sérstaklega illa niður á Íslandi. Hún ætti eftir að hafa djúpstæð áhrif í heiminum í framtíðinni. Hann fagnaði samkomulagi ríkisstjórnarninnar við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og sagði að það myndi flýta fyrir stöðugleika í efnahagslífinu á ný, auka trú á íslensku krónunni og auðvelda öðrum ríkisstjórnum og seðlabönkum að styðja frekar við bakið á Íslendingum.
Í fyrirlestri sínum ræddi hann hagsmuni á Norður-Atlantshafssvæðinu og benti á fjóra helstu þætti í því sambandi. Í fyrsta lagi væri svæðið ríkt af auðlindum. Gera mætti ráð fyrir því að um 25% af þeim gas- og olíuauðlindum sem eftir væru í heiminum væri að finna á Norðurskautssvæðinu og því væru gríðarlegir möguleikar í vinnslu jarðefnaeldsneytis á þessu svæði. Þá væru miklar endurnýjanlegar auðlindir í fiski á þessu svæði og gríðarlega mikilvægt að tryggja ábyrga fiskveiðistjórnun á þessu svæði.
Í öðru lagi hefðu þjóðirnar tvær sameiginlega hagsmuni þegar kemur að loftslagsbreytingum. Hlýnun loftslags væri staðreynd og ekki spurning um hvort, heldur hversu hratt hlýna myndi í heimnum. Bent hafi verið á að nú sé hafið kapphlaupið um norðrið enda útlit fyrir að norðlægar siglingaleiðir gæti opnast með bráðnun jökla á Norðurskautinu. Hins vegar sé Norðurskautið ekki tómarúm í lagalegum skilningi því hefðbundinn yfirráðaréttur yfir höfunum gildi einnig þar.
Ósanngjarnt að segja ógn stafi af Rússum
Í þriðja lagi hafi þjóðirnar sameiginlegra hagsmuna að gæta þegar kemur að öryggismálum þeirra. Sumir vilji meina að af Rússum stafi ákveðin ógn en það séu ósanngjarnar staðhæfingar. Rússar hafi í öllum aðalatriðum fylgt leikreglum sem mótaðar hafa verið um hafssvæðin á Norðurskautssvæðinu sem eru að hvert ríki stýri sínu 200 mílna hafsvæði og landgrunninu út frá því.
Í fjórða lagi þurfi að leita ákveðis jafnvægis í samstarfi við Rússa. Norðmenn hafi aldrei átt í stríði við þá þjóð en ákveðin óvissa ríki um hvernig Rússar muni lenda sínum málum, t.a.m. í lýðræðisátt. Norðmenn hafi sent skýr skilaboð til rússneskra stjórnvalda um að valdbeiting þeirra, t.a.m. í Georgíu sé ekki ásættanleg. Hins vegar sé mikilvægt að halda áfram samræðum við Rússa um hin fjölmörgu hagsmunamál þessara ríkja þar sem þau deila Barentshafinu. Eftir að efnahagsstyrkur Rússa hafi aukist á síðustu árum og því hafi fylgt aukin nærvera Rússahers á norskum og íslenskum svæðum.
Þá benti hann á sex svið sem mikilvægt væri að Norðmenn og Íslendingar hefðu samstarf um, þ.e. stjórnun fiskveiða, Evrópusamstarf, sameiginlegir öryggishagsmunir á Norðurskautssvæðinu, að halda áfram samvinnu við Rússa, að stuðla að vísindarannsóknum til að berjast gegn loftslagsbreytingum og loks að tryggja að sameiginlega efnahagshagsmuni á svæðinu.