Geir H. Haarde, forsætisráðherra vísar því alfarið á bug að einhverjir brestir séu komnir í stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. „Við erum mjög samhent í því í ríkisstjórninni að vinna okkur út úr þeim vanda sem við er að fást. Við erum að brjótast í gegn um erfiðleikana og þurfum ekki á því að halda að búa til deilumál," segir Geir.
Aðspurður segir Geir að ekkert hafi breyst í afstöðu hans gagnvart bankastjórn Seðlabankans. Fréttablaðið greindi frá því í gær að Samfylkingin hafi í síðasta mánuði látið bóka óánægju sína með störf seðlabankastjóra og að þeir starfi alfarið í umboði sjálfstæðismanna.
Geir hitti blaðamenn á fundi nú eftir hádegið ásamt utanríkisráðherra Noregs, Jónasi Gahr Støre. Var þeirri spurningu velt upp á fundinum hvort Norðmenn gætu jafnvel tekið að sér hlutverk sáttasemjara í deilu íslenskra stjórnvalda við Breta og Hollendinga.
Geir segir að Norðmenn hafi ekki formlega tekið að sér að vera einhverjir sáttasemjarar en þeir eru tilbúnir til að gegna einhvers konar milligönguhlutverki ef báðir aðilar kæra sig um. „Ég held að það geti bara verið jákvætt því þeir njóta traust og virðingar hjá öllum, bæði Íslendingum og Bretum og hafa virkilegan áhuga og hagsmuni í því að svona deila sé sett niður.
Auðvitað er engum til góðs að tvær gamalgrónar vinaþjóðir séu lentar í svona harðvítugri deilu út af ráðstöfunum eins bankans í Englandi. en hvað út úr því kemur er ómögulegt að segja. Ég ræddi þetta í morgun við breska Skotlandsmálaráðherrann, sem er hérna staddur og hann tók því ekki fjarri, annars notaði ég tækifærið til að koma okkar sjónarmiðum gagnvart þessari deilu mjög skýrt á framfæri við hann," sagði Geir í samtali við Morgunblaðið.
Hafa komið upp einhverjar hugmyndir með hvaða hætti Norðmenn gætu lagt lið í þessu?
„Nei, það er of snemmt að segja, þeir þurfa nú að setja sig inn í málið og átta sig á því en þegar hvorki gengur né rekur í viðræðum milli landa sem kenna sig bæði við réttarríkið og þar sem annað ríkið hefur beitt hitt mjög hörðum refsiaðgerðum þá getur verið nauðsynlegt að fá þriðja aðila til að liðka til," segir forsætisráðherra.
Geir segir að engar fjárhæðir hafi verið nefndar í viðræðum við Norðmenn um lán til handa Íslendingum en búast megi við niðurstöðu í því máli fljótlega.
Blaðamaður Morgunblaðsins spurði Geir að fundi loknum hvort einhverjar breytingar væru fyrirhugaðar á afstöðu Sjálfstæðisflokksins til Evrópusambandsaðildar og segir Geir að ESB aðild sé alltaf til umræðu innan flokksins.„Við höfum rætt þetta reglulega í gegn um árin og munu halda því áfram. Það hefur aldrei staðið upp á okkur að ræða málin. Við settum á laggirnar sérstaka Evrópunefnd sem skilaði skýrslu fyrir ári síðan undir forystu Björns Bjarnasonar. Þar eru dregnar fram mikilvægar upplýsingar um þetta. Við munum að sjálfsögðu halda áfram okkar umræðu, það er það sem varaformaður flokksins er að tala um. Síðan þurfa menn að komast að því hvort það er einhver ný niðurstaða í málinu – þá þurfa menn að ræða kosti og galla eins og alltaf," sagði Geir að loknum blaðamannafundi í dag.