Vinningshafinn í Lottóinu síðasta laugardag kom til Íslenskrar getspár í morgun með vinningsmiðann góða sem gaf honum rúmlega 33 milljónir króna í vinning. Vinningshafinn er rúmlega fimmtugur fjölskyldumaður og býr á höfuðborgarsvæðinu.
Fram kemur í tilkynningu frá Íslenskri getspá að vinningshafinn hafi keypt sjálfvalsmiða í Lottósjálfsala í íþróttahúsinu Smáranum í Kópavogi í síðustu viku, en hann var einn með allar tölurnar réttar.
Lottósjálfsalar eru nýjung hér á landi en þá afgreiðir maður sig sjálfur með kreditkorti og allir vinningar sem eru undir 25 þúsund krónum eru lagðir beint inn á kreditkortareikning viðkomandi, sem er mikið öryggisatriði, en stærri vinninga þarf að vitja hjá Íslenskri getspá.
Vinningshafinn var ánægður með nýja Lottósjálfsalann og sagði að það væri einfalt mál að gerast milljónamæringur.
Vinningshafinn fær fjármálaráðgjöf hjá KPMG en var ekki búinn að taka ákvörðun um hvernig hann ætlar að ráðstafa vinningsupphæðinni en gerir ráð fyrir að byrja á því að greiða niður skuldir.