Neytendasamtökin hafa sent Neytendastofu erindi til að fá úr því skorið hvort hækkum kjörvaxtaálags á myntkörfulánum Kaupþings standist ákvæði í lögum um neytendalán.
Neytendasamtökin hafa fengið nokkur mál inn á borð til sín þar sem lántakendur halda því fram að þeim hafi ekki verið gerð grein fyrir því að kjörvaxtaálagið gæti hækkað og ekki verið sagt á hvaða forsendum það gæti gerst. Þeir hafi jafnvel ekki vitað að til væri eitthvað sem héti kjörvaxtaálag, enda er hvorki minnst á það í lánasamningi né í gjaldskrá Kaupþings.
Fjallað er um málið á heimasíðu Neytendasamtakanna. Þar segir að Kaupþing hafi hækkað kjörvaxtaálag á myntkörfulánum um 0,8% 1. júlí síðastliðinn. Álagið hafi hækkað á undanförnum tveimur árum um tæp 2%, eða úr tæplega 1% í 2,84%.
Á heimasíðu Neytendasamtakanna er farið yfir útreikninga myntkörfulána og álagningu vaxta. Á síðunni segir að í lögum um neytendalán sé m.a. kveðið á um að lánveitandi skuli skýra neytanda frá því hverjir vextir á láninu eru og við hvaða aðstæður breytingar geta orðið. Þetta vilji lántakendur sem leitað hafi til Neytendasamtakanna meina að hafi ekki verið gert.
„Flestir töldu að óvissan sem tengist myntkörfulánunum væri fyrst og fremst vegna breytinga á millibankavöxtum sem geta hækkað og lækkað allt eftir aðstæðum. Þá fylgir auðvitað gengisáhætta myntkörfulánunum því íslenska krónan verður seint talin með stöðugri gjaldmiðlum. Áhættan af hinu svokallaða kjörvaxtaálagi kom hins vegar aftan að fólki. Þeir aðilar sem hafa haft samband við Neytendasamtökin halda því fram að þeim hafi ekki verið gerð grein fyrir því að kjörvaxtaálagið gæti hækkað og ekki verið sagt á hvaða forsendum það gæti gerst. Þeir hafi jafnvel ekki vitað að til væri eitthvað sem héti kjörvaxtaálag enda er hvorki minnst á það í lánasamningi né í gjaldskrá Kaupþings,“ segir á heimasíðu Neytendasamtakanna.