Þrír ökumenn voru um helgina kærðir fyrir ölvunarakstur og aðrir þrír fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Selfossi.
Brotist var inn í sumarbústað í landi Efri Reykja í Bláskógabyggð og þaðan stolið heimilistækjum að verðmæti á milli 700 og 800 þúsund króna í síðustu viku. Úr húsinu var stolið Elektrolux heimilistækjalínu þ.e. örbylgjuofni, viftu, keramik helluborði, bökunarofni, uppþvottavél og ísskáp sem er tveir metrar á hæð. Auk þess var stolið 32 tommu United flatskjá og tveimur Philis heimabíókerfum. Um svipað leyti var brotist inn í sumarbústað í landi Kiðabergs og þaðan stolið ýmsum munum, svo sem 50 tommu Philips sjónvarpstæki, Bose heimabíói, Bang og Olavsen útvarpstæki, BSA sjónauka á þrífæti og málverkum. Þriðja innbrotið á þessum slóðum var í gróðastöðina að Espiflöt í Laugarási aðfaranótt fimmtudagsins 30. október. Þaðan var stolið sex gróðurhúsalömpum, Gavita 600 wött. Hver sá sem veitt getur upplýsingar um þessa muni eða nokkru því er leitt geta til þess að upplýsa þessi þrjú innbrot er beðinn að hafa samband við lögregluna á Selfossi.