Vill koma innistæðum Skota til bjargar

James Murphy.
James Murphy.

James Murphy, Skotlandsmálaráðherra bresku ríkisstjórnarinnar, segir í viðtali við breska ríkisútvarpið að hann muni gera allt sem hann geti til að tryggja það að Skotar fái endurgreiddar þær 46 milljónir punda sem þeir eigi í innistæðum í íslenskum bönkum.

Murphy kom til landsins í gær og fundar með Geir Haarde forsætisráðherra og Össuri Skarphéðinssyni iðnaðaráðherra í dag.

Fram kemur á vef BBC að Murphy vilji einnig sjá til þess að innistæður skoskra góðgerðarsamtaka skili sér til baka.

„Samskipti okkar við Ísland hafa alltaf verið mjög góð, en að sjálfsögðu reynir á samskiptin um þessar mundir. Sérstaklega vegna fjármálakreppunnar og hruns íslensku bankanna,“ segir Murphy í samtali við BBC í Skotlandi.

„Skoskar sveitastjórnir og skosk góðgerðarsamtök hafa fjárfest í sumum þessara banka og ég mun leitast við að sannfæra ríkisstjórn Íslands að það eigi að greiða féð til baka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert