Að jafnaði eru u.þ.b. 20 þúsund ökutæki í umferð sem ekki hafa verið færð til skoðunar á tilskildum tíma og í einhverjum tilfellum eru á ferð ökutæki sem segja má að séu stórhættuleg vegna ástands þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu hafa orðið alvarleg umferðarslys sem rekja má til ástands ökutækja. Til að stemma stigu við þessa þróun voru samþykkt á Alþingi breytingar á umferðarlögum sem öðluðust gildi 1. október s.l.
„Með breytingum á lögunum eru boðaðar róttækar breytingar sem munu væntanlega leiða til fækkunar á óskoðuðum ökutækjum í umferð. Samkvæmt viðbót við 67. gr. umferðarlaga skal setja á gjald sem rennur í ríkissjóð að fjárhæð 15.000 kr. sem eigandi eða umráðamaður ökutækis skal greiða við almenna skoðun og endurskoðun hafi ökutæki ekki verið fært til skoðunar á réttum tíma.
Heimilt er að lækka gjaldið um allt að 50% verði það greitt innan tiltekins frests eftir að það er lagt á. Einnig má hækka gjaldið um allt að 100% verði það ekki greitt við almenna skoðun eða endurskoðun, sé þess krafist. Gjaldið getur að hámarki orðið 30.000 kr. Umráðamenn ökutækja hafa tvo mánuði upp á að hlaupa frá tilgreindum skoðunarmánuði áður en gjaldið er lagt á," samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu.
Eins og fram hefur komið tóku lögin gildi 1. október en áhrifa þeirra mun ekki gæta fyrr en 1. janúar á næsta ári. Þá munu eigendur og forráðamenn ökutækja sem hafa vanrækt það að færa ökutæki sín til skoðunar í október 2008 þurfa að greiða fyrrnefnt gjald.
Jafnframt er í smíðum reglugerð sem samgönguráðherra setur um skoðun ökutækja en þar er gert ráð fyrir að skoðunartíðni ökutækja sé breytt til samræmis við tilskipun Evrópusambandsins. Sú tilskipun kveður á um það að nýir fólksbílar skuli skoðaðir á fjórða ári og síðan á tveggja ára fresti upp frá því. Einnig er gert ráð fyrir því að hjólhýsi og tjaldvagnar verði skoðunarskyld.