Bankamenn fá ekki sérmeðferð

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir enga sérmeðferð í boði fyrir skuldara. Ef um sé að ræða óeðlilega eftirgjöf af hálfu fyrrum eigenda Kaupþings við stjórnendur  verði málið tekið upp. Fjármálaeftirlitið sé að skoða öll viðskipti bankanna síðustu mánuðina fyrir hrunið. Það hafi fengið þær upplýsingar að allar skuldir fylgdu fyrirtækinu. Hann segist líta málið alvarlegum augum en vilji ekki setjast í dómarasæti fyrr en öll kurl séu komin til grafar.

Björgvin segist ekki hafa kynnt sér stofnun einkahlutafélaga utan um hlutabréfakaup í bankanum en þetta verði allt saman skoðað. Það sé örugglega margt löglegt en siðlaust sem hafi átt sér stað í fjármálalífinu. Það verði að fara í þá vinnu nú að byggja upp heilbrigðara og traustara fjármálakerfi.

Fólk úr gömlu bönkunum hefur raðast í stjórnunarstöðum innan nýju bankanna. Svona tilvik vekja upp spurningar um hvort það sé heppilegt. Björgvin segir að dagana sem bankarnir hrundu hafi stjórnvöld viljað halda bönkunum gangandi og koma í veg fyrir að greiðslukerfi frysu. Þess vegna hafi verið leitað til fólks úr bankakerfinu sjálfu til að bankarnir starfað áfram. Unnið hafi verið margra mánaða verk á örfáum dögum og það hafi örugglega verið gerð einhver mistök í flýtinum.  Nýjar bankastjórnir verði svo kosnar í þessari viku sem taki allar ákvarðanir um rekstur bankanna í framtíðinni.  Ríkisstjórnin ætli ekki að reka bankana en það sé á hennar ábyrgð á velja ábyrgt fagfólk í þessar stjórnir en ekki endilega fólk úr röðum stjórnmálaflokkanna sjálfra,

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert